Ýmsar upplýsingar

Skólahjúkrun

 Skólaheilsugæslan er hluti af heilsugæslunni og framhald af ung- og smábarnavernd. Markmið skólaheilsugæslu er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Starfsfólk skólaheilsugæslu vinnur í náinni samvinnu við foreldra/forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda með velferð nemenda að leiðarljósi. Starfsfólk heilsugæslunnar er bundið þagnarskyldu. Skólahjúkrunarfræðingur sér um heilbrigðisfræðslu, heilsueflingu, bólusetningar, skimanir og skoðanir.

 Breyting á högum – lyfjanotkun

 Nauðsynlegt er að hjúkrunarfræðingur fái vitneskju um ef meiriháttar breyting verður á högum barnsins eða ef um langvinna sjúkdóma og lyfjanotkun er að ræða, þar sem slíkt getur eðlilega haft mikil áhrif á líðan barnsins og þar af leiðandi á hegðun þess og námsgetu.

Samkvæmt tilmælum frá landlækni sér hjúkrunarfræðingur um lyfjagjafir í skólum sé þess nokkur kostur. Ef því verður ekki við komið semur skólastjóri í samráði við nemendaverndaráð við ákveðinn aðila innan skólans um afhendingu lyfja. Í engum tilvikum getur barn borið ábyrgð á lyfjatökunni Ábyrgðin er foreldra en skólahjúkrunarfræðingur og starfsmenn skólans aðstoða barnið við lyfjatökuna.

Slys í skóla

Ef slys verður í skólanum er fyrstu hjálp sinnt, annað hvort af hjúkrunarfræðingi eða öðru starfsfólki skólans. Þurfi nemandi hins vegar að fara á slysavarðstofu eða á heilsugæslustöð er reynt að ná í viðkomandi forráðamann. Af þessum sökum er ekki síst mikilvægt að skólinn hafi upplýsingar bæði um heimasíma, vinnusíma og eða farsíma foreldra/forráðamanna.

Svefn og hvíld

Að gefnu tilefni viljum við benda foreldrum / forráðamönnum á hve mikilvægt er að skólabörn fái nægan svefn og hvíld. Fái þau það ekki geta þau ekki notið þeirrar kennslu né sinnt því starfi sem fer fram í skólanum, þau verða þreytt og vinnan fer fyrir ofan garð og neðan. 

Hæfilegur svefn er talinn vera :

5 – 8 ára börn      10 – 12 klst.

9 – 12 ára börn    10 – 11 klst.

Lús

Því miður hefur það verið fastur liður í mörgum skólum undanfarin ár að lús komi upp.

Nauðsynlegt er að láta skólann vita ef lús finnst í hári nemenda. Lús tengist ekki sóðaskap og er alveg hættulaus. Ef tilkynning um lús berst skólanum, munu allir nemendur viðkomandi bekkjar fá tilkynningu heim. Foreldrum er bent á nauðsyn þess að bregðast við slíkum tilkynnningum og kemba hár barnsins. Hægt er að nálgast leiðbeiningar hjá skólahjúkrunarfræðingi og í apótekum.

 

Prenta |