Skráning í skólahljómsveitir

Skráning í skólahljómsveitir
Reykjavíkurborg starfrækir fjórar skólahljómsveitir og einn tónlistarskóla á Kjalarnesi. Um 450 grunnskólanemendur eru í skólahjómsveitunum.

Að auki hafa verið gerðir þjónustusamningar við 18 einkarekna tónlistarskóla. Á þriðja þúsund nemendur fá styrki til náms í tónlistarskólum. Innritun í tónlistarskóla í Reykjavík fer fram rafrænt í gegnum Rafræna Reykjavík

Smellið á myndina hér til hliðar til að nálgast nánari upplýsingar og skrá barnið ykkar í skólahljómsveit. 

Prenta |

Vorhátíð

Vorhátíð
Nú er komið að vorhátíðinni sem foreldrafélag Selásskóla heldur á hverju ári. Mætum öll hress og kát í skólann okkar á Uppstigningadag, fimmtudaginn 21. maí. Hátíðin stendur frá ellefu til tvö. Dagskráin verður fjölbreytt að venju og veitingar verða á gjafverði., 50 kr stykkið. Í boði verða pylsur, gos, safi, kaffi og kökur. Í staðnum verða útileiktæki og boðið verður upp á andlitsmálun, skemmtiatriði  og leiki. Ef Guð og lukkan lofar verður sól og veðurblíða á vorhátíðardaginn.

Bjóðið vinum og vandmönnum með...

Vorhátíðarkveðjur

Rut og Elna í foreldrafélaginu og allir bekkjarfulltrúar.

Prenta |

Skólalok - breyting á skóladagatali

Skólalok - breyting á skóladagatali
Á síðasta fundi skólaráðs óskaði skólastjóri eftir því að gerðar yrðu breytingar á skóladagatali líðandi skólaárs vegna námsferðar kennara skólans. Undirbúningur ferðarinnar hefur staðið yfir um allnokkurn tíma en ekki tókst að koma skipulaginu saman án skörunar við skólalok.  Það var því óskað eftir því að skólalok yrðu 4. júní í stað 5. júní. Eftir að hafa fjallað um málið samþykkti skólaráð umrædda breytingu á skóladagatalinu og verða því skólalok 4. júní. Skólalok verða því ekki með hefðbundnu sniði með sérstökum skólalokadegi heldur hefst sumarleyfi nemenda að loknum skóladegi þann 4. júní.

 

Nemendum og foreldrum 7. bekkjar er svo boðið í útskriftarhóf fimmtudaginn 4. júní klukkan 15:30 þar sem þau eru kvödd með formlegum og hefðbundnum hætti.

Prenta |

Borgin okkar í hundrað ár

Borgin okkar í hundrað ár
Í nokkur undanfarin ár höfum við vikið frá hefðbundnum takti í skólastarfinu og valið eitthvert þema til að vinna með. Núna á miðri góu hafa nemendur okkar, kennarar og starfsfólk unnið af krafti með þema ársins í ár. Um allan skólann hefur verið unnið að ýmsum verkefnum sem eiga það sameiginlegt að fjalla um mannlífið í borginni okkar og hvernig það hefur þróast. Enda heitir þemað Borgin okkar í hundrað ár.

Verkefnin sem fengist hefur verið við þessa daga eru af ýmsum toga. Hér hefur verið glímt, leikið, föndrað, málað og byggt. Listsköpun hefur skipað ríkan þátt og um alla veggi má sjá þekkt kennileiti í borginni og tíðarandi hvers tímabils síðustu hundrað ára sprettur ljóslifandi fram hverjum þeim sem um gangana fer. Að sjálfsögðu var foreldrum og öðrum aðstandendum boðið að heimsækja okkur í lok þemans á föstudeginum. Án efa hafa verk nemendanna gripið huga pabba og mömmu, afa og ömmu og hrifið þau aftur í tímann. Gott ef ekki sást til föður horfa dreymnum augum á myndverk dóttur sinnar af ungum manni klæddan samkvæmt tískunni sem var ríkjandi í byrjun níunda áratugarins og segja við dóttur sína. ,,Svona var ég þegar ég hitti mömmu þína fyrst. Herðapúðar og stítt að aftan."

 Endilega kíkið í myndasafnið og skoðið myndefni frá þemadögunum.

Prenta |

Göngugarpar ársins

Göngugarpar ársins 
Umhverfisráð gekk í bekki um daginn og gerði könnun á því hversu duglegir nemendur og starfsfólk skólans er að nýta tvo jafnfljóta til að koma í skólann. Í leiðinni notaði ráðið tækifærið til að ræða um mikilvægi þess að vera ekki að nota bílana óþarflega mikið. Við göngum ef við getum enda eru fyrir því margar góðar ástæður. Niðurstöður könnunarinnar voru athyglisverðar eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan. Sjötti ASÁ reyndist vera duglegasti bekkurinn að ganga í skólann og fær því titilinn göngugapar ársins og farandbikar að launum. Áttatíu og tvö prósent þeirra koma gangandi í skólann þann dag sem könnunin var gerð. Það var skemmtilegt að einmitt þessi bekkur skyldi vera duglegastur að ganga í skólann vegna þess að kennarar þeirra hafa verið mjög duglegir að fara með þau í útinám. Ætli það sé samhengi á milli? Það vekur einnig athygli að starfsfólkið er ekkert sérstaklega duglegt. Aðeins 15% þeirra kom gangandi í skólann.

Nokkrar góðar ástæður til að ganga í skólann má  lesa um hér.  


Prenta |

  • 1
  • 2