Almennt um stuðning

Sérkennslu- og stuðningsáætlun Selásskóla er í anda stefnumörkunar Menntasviðs Reykjavíkur um skóla án aðgreiningar og einstaklingsmiðað nám. Áætlunin miðar að því að veita nemendum sem þess þarfnast námslegan-, félagslegan- og tilfinningalegan stuðning upp að því marki sem skólinn hefur forsendur til.

Áhersla er lögð á að mæta nemandanum þar sem hann er staddur í námi og þroska og byggja síðan ofan á þann grunn. Meginmarkmið sérkennslunnar er að stuðla að eðlilegum stíganda í námslegum framförum nemanda. Af ýmsum ástæðum eru þarfir nemenda mismunandi og þess vegna er leitast við að viðhafa sveigjanleika í kennsluháttum, námslegum kröfum og námsmati. Ávallt er samt stefnt að því að nemandi stundi nám sitt að mestu leiti í bekk á meðal bekkjarsystkina sinna.

Það verður ekki hjá því komist að horfast í augu við að vandi sumra nemenda er þess eðlis að þeir verða að stunda nám sitt um lengri eða skemmri tíma að mestu í umhverfi sem hentar þeim betur en bekkjarumhverfið. Þegar um slíkt er að ræða er markvisst unnið að því að koma í veg fyrir að tengsl nemandans við þann bekk eða námshóp sem hann tilheyrir rofni og reynt er að aðlaga nemandann að námi í bekk að nýju sé þess nokkur kostur.
Í öllum tilvikum eru foreldrar hafðir með í ráðum og stefnt að mikilli samvinnu við þá.

Nánari upplýsingar um stuðning og sérfræðiþjónustu má finna í kafla um sérúrræði í Stefnu og starfsáætlun skólans. Sjá hér Stuðningur og sérfræðiþjónusta

Prenta |