Heimanám

Heimanám hefur alltaf verið hluti af námi nemenda í Selásskóla. Vel útfært og skipulagt heimanám styður við það nám sem fram fer í skólanum og styrkir stöðu nemandans. Heimanám gefur foreldrum og forráðamönnum kost á að fylgjast með námsframvindu barna sinna og hvaða námsefni þau eru að fást við. Samvinna allra sem að barninu koma er mikilvæg til að nám barnsins verði árangursríkt. Heimanám má ekki valda togstreitu eða vera uppspretta neikvæðra samskipta barns og foreldris. Mikilvægt er að foreldrar séu í góðu sambandi við kennara um heimanám og sameiginlega er leitað leiða til að heimanámið geti verið uppbyggjandi.

Hlutverk þeirra sem að heimanámi koma

Kennarar:

 • Gefa skýr fyrirmæli um heimanámið og sjá til þess að upplýsingar um heimanám berist tímalega.
 • Sjá til þess að nemendur viti hvernig á að leysa verkefni og þekki markmið verkefnisins.
 • Gera kröfur um vönduð vinnubrögð
 • Fylgjast með að heimavinna sé unnin.
 • Undirbúa heimaverkefni þannig að nemandi hafi fengið æfingu við að leysa sambærileg verkefni. 
 • Koma til móts við mismunandi getu nemenda til að takast á við verkefnin sem lögð eru fyrir.

Nemendur:

 • Skipuleggja heimavinnu með foreldrum.
 • Leita aðstoðar ef þeir eru ekki vissir um hvernig á að vinna heimaverkefnin.
 • Sýna ábyrgð gangvart því verki sem felst í heimanámi og standi skil á því.

Foreldrar:

 • Aðstoða nemendur við að skipuleggja heimanám sitt.
 • Skapa námsumhverfi heima til að börnin eigi gott með að vinna heimaverkefnin.
 • Leiðbeina hvetja og hrósa.
 • Styðja við lestur með því að lesa fyrir barnið á móðurmáli þess og styður við lestur á sem fjölbreyttastan hátt.

Tilgangur heimanáms

 • Að nemendur þjálfist í því námsefni sem þeir hafa þegar lært.
 • Að nemendur undirbúi sig fyrir kennslustund með lestri á tilteknu efni.
 • Að nemendur skoði nánar það efni sem hefur veri fjallað um í tímum.
 • Að nemendur þjálfist í sjálfstæðum vinnubrögðum.
 • Að nemendur læri að taka ábyrgð á eigin námi.
 • Að foreldrar nái frekar að fylgjast með námi barna sinna og kynni sér námsefni þeirra.

Skipulag heimanáms í Selásskóla

 Lestur er grunnur að öllu námi og þess vegna mikilvægt að hann sé þjálfaður daglega. Nemendur lesa dagalega heima í minnst 15 mínútur.

Upplýsingar um heimanám er birt í öllum árgöngum í Mentor.  Almenna reglan skal vera sú að í lok viku á nemendum að vera ljós heimanámsvinna næstu viku.

Í fyrsta til fjórða bekk er heimavinna send heim ákveðinn dag sem getur verið misjafn eftir árgögnum. Skil eru síðan nokkrum dögum síðar og hefur þá nemandinn nokkra virka daga og helgi til að ljúka við heimanámið.

Í fimmta bekk breytist skipulag heimanáms þannig að verkefni eru unnin daglega fjóra daga vikunnar. Ekki er ætlast til heimanáms um helgar nema í sérstökum tilfellum. Hér á eftir koma almenn viðmið um magn heimanáms í árgöngum. Við bendum á að þetta eru viðmið um eðlilegt umfang heimanáms en kennarar þurfa að hafa sveigjanleika til að laga heimanámið að kennslunni og þörfum einstaka nemenda.

1.bekkur

Daglegur heimalestur. Vikulega er unnið í stafabók ásamt ritun eða stæðfærði.

2. og 3.bekkur

Daglegur heimalestur og „Orðin mín" og eitt til tvö verkefni á viku í íslensku og stærðfærði.

4.bekkur

Daglegur heimalestur og „Orðin mín" og að auki tvö til þrjú verkefni á viku í íslensku og stærðfærði.

5. bekkur

Auk daglegs lesturs er gert ráð fyrir að nemendur vinni sex námsverkefni á viku og að heimanámið taki um það bil 20 – 30 mínútur á dag. Skipting heimanáms á námsgreinar gæti verið; stærðfræði tvö námsverkefni í viku, íslenska þrjú námsverkefni, samfélags eða náttúrufræðigreinar eitt námsverkefni.

6. bekkur

Auk daglegs lesturs er gert ráð fyrir að nemendur vinni átta námsverkefni á viku og að heimanámið taki um það bil 30 – 40 mínútur á dag. Skipting heimanáms á námsgreinar gæti verið; stærðfræði tvö námsverkefni í viku, íslenska þrjú námsverkefni, samfélags eða náttúrufræðigreinar eitt til tvö námsverkefni og tungumál eitt til tvö námsverkefni.

7. bekkur

Auk daglegs lesturs er gert ráð fyrir að nemendur vinni tíu námsverkefni á viku og að heimanámið taki um það bil 40 - 50 mínútur á dag. Skipting heimanáms á námsgreinar gæti verið; stærðfræði tvö námsverkefni í viku, íslenska þrjú námsverkefni, samfélags eða náttúrufræðigreinar eitt til tvö til þrjú námsverkefni, enska eitt námsverkefni og danska eitt námsverkefni.

Þessi heimanámsviðmið verða endurskoðuð þegar nægjanleg reynsla er komin á þau.

Prenta |