Skip to content

Netöryggi

Í Selásskóla er unnið markvisst að því að auka þátt upplýsingatækni í skólastarfi og eru nemendur hvattir til að nýta sér margvíslegan tækjabúnað við nám sitt og undirbúning fyrir framtíðina. Framboð á efni á stafrænu formi margfaldast með hverju ári og möguleikar til nýtingar í skólastarfi hafa aukist til muna. Við leggjum áherslu á að kenna nemendum ábyrga netnotkun við hvert tækifæri en það er hlutverk bæði kennara og foreldra að fræða kenna börnum að nota upplýsingamiðla á uppbyggilegan hátt. Netheimurinn er í dag stór hluti af daglegu lífi barna og er nú vettvangur bæði náms og samskipta og býður upp á ýmsa vaxtarmöguleika. En ofnotkun netsins getur haft alvarlegar afleiðingar: líkamlegar, andlegar og félagslegar. Á netinu er einnig að finna óæskilegt efni og falsfréttir sem erfitt getur verðið að skilja frá æskilegu efni og því er mjög mikilvægt að kenna nemendum gagnrýna og velja á milli.  Í Selásskóla leggjum við áherslu á að nýta netið og snjalltækni á ábyrgan hátt þannig að það gagnist í öllu námi.Tölvusamskipti milli nemenda er þýðingarmikill þáttur í skólastarfinu. Nemendur nota hvert annað sem heimildir í upplýsingaöflun, og þau hafa samskipti við ýmsa sérfræðinga í rannsóknarvinnu. Einnig eru tölvusamskipti mikilvæg í tungumálakennslu þar sem nemendur geta notað málið sem þau eru að læra og jafnvel haft samskipti við nemendur sem hafa málið að móðurmáli, sem er ómetanleg hjálp í tungumálanámi. Kennarar og nemendur í Selásskóla taka þátt í margvíslegum alþjóðlegum samskiptaverkefnum og þarf því að fara vel yfir ábyrg samskipti og benda á hvað bera að varast. Mikilvægt er fyrir skóla að setja markmið um örugga netnotkun sem fylgt er eftir í daglegu starfi. Einnig er mikilvægt að fræða bæði börnin og foreldra þeirra um þær hættur sem leynast á netinu og um ofnotkun á tölvum.