Skip to content

Námsmat

Námsmat í Selásskóla
Í Selásskóla byggjum við námsmatið á hæfniviðmiðum Aðalnámskrá grunnskóla. Hæfniviðmið er sá grundvöllur sem kennsluhættir og námsmat byggist á. Mikilvægt er að námsmat nái til allra færniþátta og endurspegli hæfniviðmiðin og viðfangsefni námsins. Út frá hæfniviðmiðum velja kennarar og nemendur kennsluaðferðir, námsefni og matsaðferðir og skal gera grein fyrir þeim í skólanámskrá.
Lykilhæfni er samofin námsmati og er sú hæfni sem snýr að nemandanum sjálfum og er ætlað að stuðla að alhliða þroska hans. Hún tengist öllum námssviðum og snýr að hæfni í tjáningu og miðlun, skapandi og gagnrýninni hugsun, sjálfstæði og samvinnu, nýtingu miðla og upplýsinga og ábyrgð og mat á eigin námi. Mat á lykilhæfni birtist í hæfnikorti nemandans og koma allir kennarar hans að því mati. Mikilvægt er að lykilhæfni sé hluti af menntun í grunnskóla, bæði formlega og óformlega sem og í starfsháttum skólans
Í Selásskóla er lögð áhersla á að gefa nemendum sem best til kynna hvað lagt er til grundvallar matinu; námsmatið sé hvetjandi, greinandi og leiðbeinandi. Þegar lagt er mat á frammistöðu eða framfarir nemenda, með hliðsjón af hæfniviðmiðum, skal fyrst og fremst miðað við þann nemanda sem í hlut á. Þá eru metnar framfarir nemandans og árangur miðað við hans eigin hæfileika og getu. Námsmat í Selásskóla á sér stað jafnt og þétt á námstímanum (símat). Litið er á skólaárið sem eitt námsmatstímabil.
Markmið er:
• að kanna að hve miklu leyti nemandi hefur náð tilskyldum hæfniviðmiðum
• að upplýsa nemanda og foreldra / forráðamenn um námsstöðu hans
• að matið sé leiðbeinandi og hvetjandi
• að greina hverjir þurfa á sérstakri aðstoð að halda
• að leiðbeina nemendum um námið og hvernig þeir geta náð settum viðmiðum
Námsframvinda
Í öllum námsgreinum eru metanleg hæfniviðmið skilgreind í Mentor þar sem matið er á kvarðanum framúrskarandi hæfni, hæfni náð, þarfnast þjálfunar, á góðri leið og hæfni ekki náð. Hæfniviðmið aðalnámskrár í hverri námsgrein fyrir sig eru sá grundvöllur sem kennsluhættir og námsmat eiga að byggja á.
Hæfni ekki náð
Þarfnast Þjálfunar
Á góðri leið
Hæfni náð
Framúrskarandi
Hefur ekki náð hæfni. Lítill skilningur eða færni.
Hefur ekki fyllilega náð hæfni. Einhver skilningur á námsefni sem lagt er til grundvallar.
Er á góðri leið við að ná hæfniviðmiði.
Sýnir hæfni sem ætlast er til, fáar eða engar skekkjur á því sem kennt er
Skilningur og færni umfram hæfniviðmið.
Námsviðtöl
Námsviðtöl eru tvisvar á skólaárinu, í október og febrúar. Í október er áhersla á að ræða um líðan, samskipti og hvernig skólaárið fer af stað en í febrúar er áhersla á námsframvindu nemenda. Lögð er áhersla á að samtalið sé leiðbeinandi bæði fyrir foreldra og nemandann.
Hæfniviðmiðin sem liggja til grundvallar í öllum námsgreinum eru aðgengileg í Mentor og gerð er grein fyrir viðfangsefnum nemenda og námsmati. Í námsferlinu er metin frammistaða nemenda og ýmis afrakstur s.s. sjálfstæð verkefni, verkefnabækur, ritunarverkefni, kynningar, myndverk o.s.frv. Fylgst er með nemendum að störfum og meðal annars metnir þættir eins og sjálfstæði, samvinna, félagsfærni, vinnuvenjur og ástundun.
Leiðsagnarmat
Samkvæmt aðalnámskrá er áhersla á að kennarar hjálpi nemendum til raunhæfs sjálfsmats, geri þeim grein fyrir markmiðum námsins og hvernig miðar í átt að þeim. Til að ná slíku fram skal leggja áherslu á leiðsagnarmat sem byggist á því að nemendur velti reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skal stefna. Nemendum þarf að vera ljóst hvaða hæfniviðmið eru lögð til grundvallar í matinu. Leiðsagnarmat miðar að því að meta framfarir nemenda í þeim tilgangi að nota niðurstöðurnar til að gera nauðsynlegar breytingar á námi og kennslu. Í leiðsagnarmati er fylgst með nemendum á námstímanum og þeim leiðbeint. Lögð er áhersla á fjölbreyttar matsaðferðir, s.s. kannanir, frammistöðumat, sjálfsmat, jafningjamat, samræður o.fl., til að safna upplýsingum um stöðu nemenda, hvað þeir vita og geta og hvers þeir þarfnast til að ná betri árangri.
Áhersla er lögð á að nemendur séu þátttakendur í námsmatsferlinu og að endurgjöf sé regluleg, hafi skýran tilgang, sé greinandi, jákvæð og gagnleg þ.e. að nemendur geti notað endurgjöfina til að meta hvort þeir hafi náð árangri.
Lokamat
Í Selásskóla er nú litið á skólaárið sem eitt námsmatstímabil. Lokamat hefur þann megintilgang að gefa upplýsingar um árangur náms og kennslu í lok námstíma eða í lok skólaársins. Matsaðferðir við lokamat ákvarðast af hæfniviðmiðum aðalnámskrár en matið er oftast byggt á fjölbreyttum verkefnum og vinnu nemenda. Lögð er áhersla á að í tengslum við þau verkefni sem lögð eru fyrir nemendur sé ljóst hvaða hæfniviðmið er verið að meta hverju sinni og við hvaða matskvarða hæfniviðmiðin tengjast. 1.-7. bekkjar. Námsframvinda er metin út frá hæfniviðmiðum sem birtast í hæfnikorti nemenda og ekki er gefin lokaeinkunn að vori.