Skip to content

Foreldrasamstarf

Selásskóli er grunnskóli þar sem grundvöllur starfsins er fræðsla og uppeldi sem byggir á Aðalnámskrá grunnskóla og
þeirri stefnu sem mörkuð er af fræðsluyfirvöldum Reykjavíkur. Í stefnu skólans segir m.a.:
"Í erli og hraða samfélagsins sem við lifum í, er þörf á því að ala börn upp í því að bera virðingu fyrir sjálfum sér og
öðrum. Þau þurfa að gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir því að vera manneskja. Uppeldi barnanna er fyrst og
fremst á ábyrgð foreldra. Foreldrar kenna þeim umgengisvenjur, kurteisi og háttprýði og í Selásskóla þjálfast þau í
samskiptum við aðra og að vera þátttakendur í samfélagi ólíkra einstaklinga. Selásskóli leggur áherslu á samstarf við
foreldra með velferð nemenda að leiðarljósi."
Í Selásskóla hefur verið lögð áhersla á að samstarf skólans og foreldra einkennist af jákvæðum samstarfsanda og
að gagnkvæm virðing ríki milli aðila. Það er hverjum skóla mikilvægt að eiga í traustum samskiptum við heimilin og
þetta er þáttur sem þarf að rækta og hlúa að. Þátttaka og stuðningur foreldra við börnin sín í skólastarfinu skiptir miklu
máli og hefur áhrif bæði á námsárangur þeirra og líðan. Foreldrar þekkja börnin sín best og því er lögð áhersla á það við
foreldra að þeir séu í góðu sambandi við skólastjórnendur og kennara hvenær sem þeir telja þörf á, á sama hátt og
skólastjórnendur og kennarar munu á hverjum tíma hafa samband við foreldra ef talin er nauðsyn á, t.d. vegna líðan
nemenda eða til að efla og styrkja náms- og félagsfærni þeirra.
Í samstarfsáætlun skólans við foreldra er greint frá því hvernig samstarfi skóla og heimilis er háttað, markmiðum
samstarfsins, hlutverki skólans og foreldranna, skólaráðs, foreldrafélags og árgangafulltrúa.