NFBO ráðstefna

Það var tilefni til að brosa breitt í gær þegar hópur stúlkna í 7. bekk var boðið að hlusta á Guðna Th forseta Íslands flytja erindi um mikilvægi þess að skilja og vernda börn á stafrænni öld á Norrænni ráðstefnu um ofbeldi gegn börnum. Fyrr í vetur vann þessi sami hópur stuttmyndasamkeppnina SEXUNA á vegum Neyðarlínunnar og fengu þær tækifæri til að stíga á svið og segja frá sínu sjónarhorni.
Þetta voru átta stelpurnar sem unnu til verðlauna og stigu upp á svið en Sigrún Ósk Hallsdóttir flutti stutta ræðu meðal annars um ástæðu þess að þær völdu þetta umfjöllunarefni, mikilvægi þess að skilja stafrænt nútíma umhverfi og hvers vegna það er mikilvægt fyrir fullorðna að skilja þennan heim unglinga. Þær stóðu sig ótrúlega vel sem endranær og við hér í Selásskóla gætum ekki verið stoltari af þeim. Það er ljóst að um gríðarlega mikilvægt málefni er að ræða sem þarf að taka á af skilningi og alúð, opnu hugarfari og öryggi þar sem öllum er gert kleift að tjá sig og hlusta á aðra. Þessi flotti hópur stúlkna benti líka á mikilvægi þess að fullorðnir hlusti gaumgæfilega á yngri kynslóðir og læri af þeim.
Flottur hópur nemenda og yndislegur dagur sem verður lengi í minningum hafður. Það er frábært að sjá metnað og samvinnu skila sér með slíkum árangri og við hlökkum til að sjá hvað þær taka sér fyrir hendur í framtíðinni!