Skip to content

Vorferð hjá 6.bekk

Þann 25.apríl síðastliðinn fór 6.bekk í frábæra vorferð sem heppnaðist stórkostlega. Fyrst var farið niður á Faxaflóahöfn þar sem við fengum okkur sparinesti á höfninni. Síðan klæddum við okkur í björgunarvesti og héldum í siglingu á skipinu Rósinni. Tveir nemendur úr Háskóla Íslands, líffræðideild, tóku á móti okkur og skiptu okkur í tvo hópa. Annar hópurinn byrjaði uppi á þilfari og virti fyrir sér náttúruna og Lundey, þar sem við fengum ýmsar upplýsingar um Lunda, Ritu og Fýla. Hinn hópurinn var niðri og fékk fræðslu um allskonar sjávardýr eins og hákarla, skötuseli, hörpudiska og fleiri dýr. Síðan skiptu hóparnir um stað. Í lokin vorum við svo öll saman uppi að sigla og var ýtt á skipstjóranna að sigla hratt í öldurnar svo að það skvettist vel yfir okkur við hlátur og gleði nemenda. Enda skein sólin vel á okkur þennan morguninn.

Þá fórum við í rútuna upp í Gufunesbæ þar sem við fórum að leika okkur í góða veðrinu og grilla okkur samlokur og pylsur. Þeir sem vildu grilla sjálfir sinn mat fengu að gera það, hinir léku sér á meðan. Það sem var skemmtilegast hjá þeim var vatnsbyssustríð sem við vorum búin að leyfa og nutu þau sín vel að bleyta hvort annað.

Í eftirmat fengu þau að grilla sér sykurpúða og dýfa í súkkulaði sem sló verulega í gegn og súkkulaðibrosið fór ekki af þeim restina af ferðinni. Við lékum okkur áfram í allskonar leikjum og enduðum svo þessa frábæru ferð í Spönginni þar sem foreldrar buðu okkur upp á ís með dýfu í Huppu. Setningar eins og „Besta ferð ever“ heyrðist oft og „Þessi ferð toppar allt“ Þannig að það voru glaðir krakkar og kennarar sem komu heim í lok dags eftir frábæra ferð. Myndir

Kveðja

Hanna Lára og Finnur