Skip to content

Útskriftarferð

Sjöundi bekkur fór í óvissuútskriftarferð mánudaginn 7.júní.

Við mættum öll kl.8.00 og héldum af stað í rútu, eins og við værum að fara austur fyrir fjall en beygðum inn í Norðlingaholtið þar sem við byrjuðum á klukkutímasprikli í Fylkisselinu, fimleikaheimilinu. Eftir það fengum við glæsilegan ávaxtabakka frá Palla kokki sem börnin voru mjög ánægð með. Síðan héldum við af stað norður/vestur og enginn vissi hvert skyldi halda. En þá komum við í skóræktina á Akranesi og lékum okkur þar í ágætis veðri í klukkutíma, þar var farið í leiki, rölt um, farið í rólu og aparólu, spjallað og leikið. Við hittumst á bílastæðinu kl 11 og þá héldum við gangandi af stað í gólfskálann þar sem við fengum sal út af fyrir okkur og pizzahlaðborð frá Galito, veitingastað Akranesi. Þar runnu margar ljúffengar pizzusneiðar niður með frönkum og brauðstöngum.

Eftir matinn héldum við að Akranesvita og vorum þá svo heppin að hitta á vitavörðinn sem tók vel á móti okkur, sagði okkur ýmislegt um vitann og aðra vita á landinu og leyfði okkur að fara upp í turn og njóta útsýnisins. Mörgum fannst þetta alveg stórkostlegt og vildu helst ekki koma niður aftur. En áfram hélt ferðin og fórum við í glampandi sól á Langasand, þar sem var leikið og margir fóru í Guðlaugu, sjópottinn við ströndina. Þeir sem vildu ekki bleyta sig í sjónum eða pottinum léku sér á hoppubelgnum við íþróttahúsið og leiktækjunum þar fyrir framan. Eftir dásamlegan tíma þarna var tími til komin að halda af stað í síðasta staðinn fyrir heimför en það var Erlu-ís í Mosfellsbæ, þar sem allir fengu sér ís í formi með dýfu og/eða ís.

Frábær ferð, sem heppnaðist dásamlega vel. Myndir