Skip to content

eTwinning skólaárið 2020-2021

Það er óhætt að segja að eTwinning sé að festa sig í sessi í Selásskóla og á þessu fyrsta ári okkar sem eTwinning skóli hafa verið unnin mörg skemmtileg verkefni.  

eTwinning er aðgengilegt skólasamfélag á netinu þar sem hægt er að komast í samband við evrópska kennara og skólafólk, taka þátt í einföldum samstarfsverkefnum og sækja sér endurmenntun á vinnustofum og námskeiðum, svo eitthvað sé nefnt, allt með hjálp upplýsingatækni.

Þessi verkefni voru unnin í vetur:

 

Boat game:

Bátaleikurinn er STEM áskorun sem er ætlað að örva rökhugsun barna með þrautum og sköpun. Markmiðið er að búa til bát sem getur siglt 300-350 metra. Nemendur hönnuðu og bjuggu til báta sem þeir fóru svo með niður á Rauðavatn í bátakeppni. Það voru nemendur í 7. bekk sem tóku þátt í þessu verkefni undir stjórn þeirra Sunnevu og Hönnu Lára. Þetta verkefni var unnið í anda Austur – Vestur og voru samstarfsskólar okkar Ingunnarskóli og Vesturbæjarskóli ásamt skólum frá Svíþjóð og Finnlandi. 

 

Easter Cards Exchange 2021:

Þetta verkefni tengdist páskahátíðinni og bjuggu nemendur til páskakort sem þeir sendu á milli landa. Þeir skrifuðu fallegar kveðjur í kortin. Einnig var sagt frá páskahátíðum í hverju landi fyrir sig. Það voru nemendur í 4. bekk undir stjórn Selmu Birnu sem tóku þátt í þessu verkefni. 

 

Garden full of spring flowers:

Það voru 48 kennarar frá 25 löndum sem tóku þátt í þessu skemmtilega vorverkefni sem hófst í fyrravor en vegna Covid var ekki hægt að klára verkefnið og var það því flutt yfiri á haustið. Nemendur teiknuðu og klipptu út blóm og sendu til hinna þátttakendanna og fengu svo blóm frá þeim á móti. Blómunum var svo komið fyrir upp á vegg með upplýsingum um hvaðan það koma og með fána viðkomandi lands. Verkefnið byrjaði þegar nemendur voru í 1. bekk og hélt áfram í 2. bekk undir stjórn þeirra Karólínu og Hrannar. 

 

The garden full of Spring butterflies:

Fiðrildaverkefnið er líka skemmtilegt vorverkefni þar sem nemendur unnu með fiðrildi. Í þessu verkefni tóku þátt 33 kennarar frá 16 löndum. Nemendur teiknuðu fiðrildi og fræddust um þau. Síðan voru fiðrildin send til hinna landanna og um við fengum fiðrildi í pósti. Þau voru síðan hengd upp á vegg þar sem nemendur gátu virt þau fyrir sér með fána og landi hvers sendanda. Það voru nemendur í 1. bekk sem unnu þetta verkefni undir stjórn þeirra Sigríðar og Stefaníu.

 

Book it 21! :

Markmiðið með þessu verkefni var að hvetja nemendur til að lesa meira og að deila upplifun sinni af lestri bóka með öðrum. Nemendur lásu bækur og unnu svo í hópum að kynningum á þeim. Formið á kynningum var bókastiklur eða stuttar kvikmyndir þar bækurnar og  voru kynntar og síðast en ekki síst mat lagt að gæði bókanna. Kynningarnar voru svo settar á sameiginlegt svæði þannig að hinir þátttakendurnir gætu skoðað. Það var gaman að sjá fjölbreytt val nemenda á svipuðum aldri á bókum. Nemendur í 6. bekk tóku þátt í þessu verkefni undir stjórn Ásu Drafnar og Sóleyjar. 

 

Through children’s eyes.:

Í þessu verkefni var unnið með ljósmyndir og lærður börnin að taka ljósmyndir sem þau deildu á Padlet vegg. Í hverjum mánuði allt skólaárið var ákveðið þema og áttu myndirnar að vera í þeim anda. Í þessu verkefni notuðu nemendur ipada og lærðu að horfa á umhverfið á nýjan hátt. Verkefnið var unnið í 3. bekk undir stjórn þeirra Áslaugar Evu og Eddu Sigrúnar. 

Enn fremur kláruðust verkefni sem unnin voru á síðast ári og áttu að klárast um vorið. Our nordic travelling book sem nemendur í 7. bekk tóku þátt í og verkefnið Nordic Dimension in School Libraries and Learning Centers sem unnið var á skólasafni. Hér er hægt að sjá myndir úr þessum fjölbreyttu verkefnum.