Harry Potter á skólasafninu

Í síðustu viku var nú heldur betur fjör á skólasafninu okkar þegar við héldum Harry Potter húllumhæ. Öllum bekkjum skólans var boðið í heimsókn og voru heilmörg ævintýri í boði:
Galdraskepnan mín: Hannaðu þína eigin galdraskepnu. Hvernig lítur hún út? Hvað getur hún gert?
Galdraskák: Prófaðu að tefla eins og nemendur í Hogwartskóla.
Ósýnilegt blek: Hér getur þú lesið ósýnileg skilaboð og búið til þín eigin.
Wingardium Leviosa!: Getur þú látið fjöðrina fljúga? -Segultilraun.
Próf: Settu þig í spor Hermione sem er stressuð fyrir próf. Sýndu hvað þú kannt í Kahoot prófi.
Talnagaldrar: Einu galdrarnir sem Muggar geta lært. Hvaða spádóm felur nafnið þitt í sér?
Galdranafnið þitt: Hvað ætli þú myndir heita ef þú værir nemandi í Hogwartskóla?
Huliðsskikkja: Láttu þig hverfa með huliðsskikkju Harry Potters! -Verkefni með grænskjá.
Bréf: Skrifaðu stutt bréf til krakkanna sem eiga Harry Potter dótið í skápnum. Uglurnar koma bréfinu til skila, svo færðu svarbréf!
Tom Marvolo Riddle: Reyndu fyrir þér í Trivial Pursuit á ensku.
Revelio! Hvaða ráðum geta Muggar beitt til að sjá hvað er inni í gimsteinunum? -Tilraun með klaka og bráðnun.
Áhugasamir krakkar úr 6. og 7. bekk aðstoðuðu hópana á meðan þeir voru í heimsókn á safninu. Skemmst er frá því að segja að aðstoðarfólkið stóð sig frábærlega og varla hægt að hugsa sér betri hjálp. Það ríkti kátína og gleði á safninu allan tímann og greinilegt að gestirnir skemmtu sér konunglega.