Skip to content

eTwinning skólaárið 2019-2020

Það er óhætt að segja að eTwinning sé að festa sig í sessi í Selásskóla en á skólaárinu sem var að líða hafa verið unnin mörg áhugaverð verkefni. 

eTwinning er aðgengilegt skólasamfélag á netinu þar sem hægt er að komast í samband við evrópska kennara og skólafólk, taka þátt í einföldum samstarfsverkefnum og sækja sér endurmenntun á vinnustofum og námskeiðum, svo eitthvað sé nefnt, allt með hjálp upplýsingatækni.

Þessi verkefni voru unnin í vetur:

 

Sophie goes South – Storytelling Sophie güneye gider

Í þessu verkefni hlutsuðu nemendur á söguna um hana Sophie sem fór á Suðurpólinn eftir ástralska rithöfundinn Alison Lester. Markmiðið með þessu verkefni er að vekja nemendur til umhugsunar um heimskautasvæðin, hvar þau eru og hvernig er umhorfs þar. Einnig að tengja við loftlagsmálin og vatnsbirgðir heimsins. Nemendur í 2. bekk unnu að þessu verkefni með þeim Siggu og Stefaníu undir stjórn Kolbrúnar Svölu Hjaltadóttur eTwinning sendiherra.

 

Our friend Pinocchio

Í þessu verkefni hlustuðu nemendur og lásu um spýtustrákinn Gosa eftir ítalska rithöfundinn Carlo Collodi. Markmiðið með þessu verkefni var m.a að vekja áhuga nemenda á sögum og lestri og ekki síst á ævintýrinu um Gosa. Einnig að vekja þá til umhugsunar um réttindi og skyldur um leið og þau tengjast nemendum frá örðum löndum. Þetta verkefni var aðeins styttra en efni stóð til þar sem Covid setti strik í reikninginn. Nemendur úr umsjónarhópi Bergljótar í 4. bekk unnu þetta verkefni ásamt Bergljótu og Rósu á skólasafninu.

 

Book it 20!

Markmiðið með þessu verkefni var að hvetja nemendur til að lesa meira og að deila upplifun sinni af lestri bóka með öðrum. Nemendur völdu sér bækur til að lesa og stofnaðir voru bókaklúbbar um hvern titil. Á meðan á lestri bókanna stóð komu nemendur á safnið og ræddu um efni þeirra. Þegar allir höfðu klárað bækurnar þá stóð til að hver hópur gerði bókastiklu en þar sem skerðing var á skólahaldi þá var ekki tími til þess. Þess í stað var gerð ein stuttmynd með umfjöllun um allar bækurnar sem unnin var á mettíma. Kynningin var  svo sett á sameiginlegt svæði þannig að hinir þátttakendurnir gátu skoðað. Það var gaman að sjá fjölbreytt val nemenda á svipuðum aldri á bókum. Nemendur í 7. bekk tóku þátt í þessu verkefni undir stjórn Rósu Harðardóttur á skólasafninu.

 

A book is our friend

 

Verkefnið snerist um vináttu. Lukkudýr verkefnisins var Bangsímon og heimsótti hann alla þátttökuskólana.  Nemendur hlustuðu og lásu sögur um Bangsímon og einnig heyrðu þeir aðrar sögur sem fjölluðum um vináttu. Nemendur skrifuðu sögur um Bangsímon og vináttu og sungu vinalög. Bangsadagurinn og gistinótt fyrir bangsa nemenda var einnig liður í þessu verkefni sem nemendur í 2. bekk unnu í samvinnu við þær Siggu og Stefaníu umsjónarkennara ásamt Rósu á skólasafninu.

Our Tree of Wishes

Í þessu verkefni var unnið með óskir nemenda og væntingar þeirra. Þeir veltu fyrir sér hvers þeir óskuðu sér í lífinu og skrifuðu svo óskir sínar niður og hengdu á fallegt tré í skólanum. Síðan voru tré frá öðrum þátttökulöndum skoðuð og valið var fallegasta tréð. Nemendur þjálfuðust í ensku og  tjáningu ásamt því að virkja sköpunargáfur sínar. Þetta verkefni var unnið með nemendum í 4. bekk og umsjónarkennurum þeirra þeim Halldóru og Bergljótu. 

 

Our Nordic travelling book

Verkefni þetta tengist Nordplus verkefni sem unnið hefur verið í skólanum undanfarin 2 ár en með fleiri þátttakendum heldur en í því verkefni. Þátttakendur voru 7 frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Færeyjum og Noregi. Hver þátttökubekkur bjó til upphaf á sögu og setti í bók sem allar hafa verið á ferðalagi í vetur. Þegar hver bók hefur heimsótt hvern skóla fyrir sig og hver skóli bætt við sögurnar þá fer hver bók í þann skóla sem hún byrjaði. Skertar samgöngur á meðan á Covid stóð hafði þau áhrif að ekki var hægt að klára svo við tökum upp þráðinn strax í haust og klárum þær sögur sem eftir eru. Þetta verkefni var unnið með nemendum í 6. bekk ásamt umsjónarkennurum þeirra þeim Sunnevu, Áslaugu og Evu í samstarfi við Rósu á skólasafninu. Auk þess tóku nokkrir nemendur úr 7. bekk einnig þátt ásamt nemendum úr 4. bekk. 

 

Nordic chat

 

Þetta er einfalt og skemmtilegt  verkefni sem nemendur í 5. bekk unnu með skóla í Helsinki í Finnlandi. Markmiðið með þessu verkefni var að kynnast siðum og venjum í hvoru landinu fyrir sig. Verkefnið byrjaði í fyrra og var þá  unnið í tengslum við Norræna viku hjá þeim í Finnlandi og þar sem það heppnaðist svo vel var haldið áfram í vetur. Nemendur hafa eignast pennavini sem þeir skrifa reglulega bréf.  Verkefnið var unnið undir stjór Hönnu Láru umsjónarkennara í 5. bekk í samvinnu við Rósu á skólasafninu. 

 

Adventures with Ruby

 

Heimur Ruby snýst um ímyndunarafl og ævintýri.  Ruby  er lítil stelpa sem eignast vini  á meðan hún leysir vandamál. Í þessu verkefni kynntust nemendur undirstöðuatriðunum í forritun í gegnum sögu. Sagan sem notuð var heitir Hello Ruby og er eftir finnska rithöfundinn, myndskreytinn og forritarann Lindu Liukas. Nemendur í 5. bekk tóku þátt í þessu verkefni í tímum á safninu hjá Rósu. 

Hér er svo hægt að sjá margar skemmtilegar myndir sem teknar voru við vinnuna