Skip to content

Fyrirhugað skipulag skólastarfs í Selásskóla

 

 

 

 

  1. mars 2020

 

Ágætu foreldrar og forráðamenn barna í Selásskóla

 

Fyrirhugað skipulag skólastarfs í Selásskóla, meðan takmarkanir gilda vegna samkomubanns

 

Grunnskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum að þeim skilyrðum uppfylltum að ekki séu fleiri en 20 nemendur í kennslu í sömu stofu og að nemendur blandist ekki milli hópa. Jafnframt skulu gerðar ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag. Til að starfa eftir þessum tilmælum munum við breyta skipulagi skóladags töluvert.

Starfsfólk Selásskóla vinnur að því að skapa nemendum eins góðan skóladag og unnt er og að nemendur fái kennslu og leiðbeiningar á þeim tíma sem þeir eru í skólanum og fái síðan heimaverkefni (þjálfunarverkefni) til að vinna. Með því móti vinna heimili og skóli saman og verkefni verða til staðar til að þjálfa heima. Við hvetjum foreldra til að vera í sambandi við umsjónarkennara í gegnum tölvupóst, eða hringja í síma 5672600. Hér koma mikilvægar upplýsingar:

  • Skólinn er aðeins fyrir nemendur og starfsfólk.
  • Foreldrar og aðrir sem gætu átt erindi í skólann mega ekki koma inn í skólann heldur kveðja börn sín við innganginn í skólann.
  • Selásskóli verður hólfaður niður eftir byggingum eða álmum. Tiltekinn hópur starfsfólks (kennarar, stuðningsfulltrúar, skólaliðar) sinnir sínum störfum þar og mikilvægt er að allar ferðir út fyrir þau svæði séu mjög takmörkuð og bara af algerri nauðsyn.
  • Lokað (læst) verður milli álma.
  • Mötuneyti verður lokað.
  • Kennsla fer bara fram í kennslustofum. Ekki er heimilt að nýta önnur svæði til kennslu.
  • Kennsla í öllum sérgreinum; heimilisfræði, smíði, textíl, tónmennt, íþróttum og sundi, fellur niður.
  • Skólasafnið verður lokað.
  • Einn árgangur er á hverju svæði í senn. Nemendur koma með yfirhafnir með sér inn í stofur.
  • Inngangar verða þeir sömu og venjulega fyrir 1. og 2. bekk.
  • Nú verður inngangurinn á efri hæðinni notaður og inngangur fyrir þá hópa sem nota efri hæðina: 5. bekk, 6. bekk og 7. bekk, en aðeins fyrir einn hóp í einu.

 

 

 

  • Inngangur hjá tölvuveri er fyrir 4. bekk.
  • Inngangur móti bókasafni er fyrir 3. bekk.
  • Nauðsynlegt er fyrir nemendur að nota réttan inngang, því ekki verður hægt að hleypa nemendum milli svæða. Nemendur sem fara í Víðisel geta ekki farið í gegnum skólann eins og þau eru vön.
  • Athugið að ekki verður boðið upp á mat í skólanum. Nemendur mega koma með nesti sem þeir borða í stofunum. Einnig eru nemendur hvattir til að koma með vatnsbrúsa.
  • Nemendur eru beðnir að koma með pennaveski að heiman, með helstu skriffærum, yddara, litum og skærum. Þetta á aðallega við um þá bekki sem venjulega deila ritföngum.
  • Ekki er gert ráð fyrir frímínútum. Nemendur fara strax heim að loknum þeirra tíma í skólanum.

 

Skipulag skóladags verður sem hér segir þangað til annað verður tilkynnt:

 

Staðsetning Kl. 8:10 – 10:10 Kl. 10:40 – 12:40 Kl. 13:00 – 15:00
Ásgarður 2. bekkur 1. bekkur  
Vesturgarður niðri 3. bekkur 4. bekkur  
Vesturgarður uppi 5. bekkur 6. bekkur 7. bekkur

 

 

Vinsamlegast fylgist vel með tölvupósti og tilkynningum á Facebook síðu foreldrafélagsins, en við reynum að tilkynna breytingar eins fljótt og okkur er unnt.

 

 

Bestu kveðjur,

Stjórnendur og starfsfólk Selásskóla