2. bekkur í skíðaferð

Nemendur 2.bekkjar fóru ásamt umsjónarkennurum í skíðaferð í skíðabrekkuna í Ártúninu fimmtudaginn 27.febrúar. Miðstöð útivistar og útináms (MÚÚ) á vegum Reykjavíkurborgar býður nemendum í 2.bekk í Reykjavík að koma á skíði á skólatíma til að kynnast þessari frábæru útivist. Við í Selásskóla ákváðum að taka þessu góða boði. Nemendum var skipt í tvo hópa þannig að allir fengju að njóta sín. Allur skíðabúnaður var á staðnum fyrir nemendur. Búið var að senda skipuleggjendum hæð, þyngd og skóstærð nemenda fyrirfram og því var allt til reiðu þegar við mættum á svæðið með hópana og gekk hratt og vel fyrir sig að koma nemendum í græjurnar. Starfsmenn voru svo með grunnkennslu á skíðin, svo sem að bremsa, beygja, halda jafnvægi og hvernig maður ber sig að í lyftunni, áður en menn létu svo vaða í lyftuna. Börn eru ótrúleg og það var alveg magnað að sjá þessa snillinga sem jafnvel voru hálf grátandi um morguninn af ótta við að þeir gætu þetta ekki, skella sér í lyftuna og renna sér fagmannlega niður brekkurnar. Byrjað var smátt og fengu nemendur fyrst um sinn að fara upp í hálfa brekku, en þegar leið á voru nokkrir sem létu vaða í alla brekkuna – sumir að vísu vanir á skíðum en aðrir sem höfðu aldrei stigið fæti á þau. Gleðin skein úr hverju andliti og viðmót starfsfólksins sem tók á móti okkur og leiðbeindi krökkunum var einstakt. Myndir