Sköpun og tækni í þróunarverkefninu Austur – Vestur

Þróunarverkefnið Austur-Vestur er samstarfsverkefni Ingunnarskóla, Vesturbæjarskóla og Selásskóla og snýst um sköpunar- og tæknismiðjur í grunnskólastarfi. Hópur kennara við Menntavísindasvið Háskóla Íslands kemur einnig að verkefninu með ráðgjöf og rannsókn á framvindu þess.
Markmið verkefnisins er að stuðla að meiri sköpun í skólastarfi, tengslum náms við samfélagið, breytingastarfi og því hvernig skólinn fer að því að mæta í verki ákalli um nútímalegt og uppbyggilegt skólastarf. Stefnt er að því veita nemendum fjölbreytt tækifæri og skapa þeim vettvang til að prófa og takast á við margbreytileg viðfangsefni sem reyna á hæfni þeirra og hugvit. Til þess að gera kennurum kleift að vinna eftir þessari hugmyndafræði er þeim boðið upp á fjölbreyttar kynningar á ólíkum viðfangsefnum, þeir fá stuðning frá verkefnisstjórum, þeim er bent á greinar og umfjallanir og síðast en ekki síst er það samvinna þessara þriggja skóla sem gegnir lykilhlutverki í þessu verkefni. Á haustönn 2019 voru haldnar tvennar menntabúðir og voru þær þriðju haldnar í hér í Selásskóla í síðustu viku.