Skip to content

Gistinótt á skólasafninu

Það var heldur betur fjör þegar 26 bangsar  eða önnur mjúkdýr gistu á skólasafninu nýlega. Bangsarnir voru þó ekki alveg tilbúnir að fara að sofa heldur fundu sér ýmislegt til dundurs. Margir lásu bækur en aðrir spiluðu og tefldu.

Tumi tígur  hélt sögustund og leyfði öllum að grilla sykurpúða. Sumir bangsarnir voru samt pínulítið óþekkir og príluðu upp í glugga,blóm  og hillur, nokkrir stálust í tölvuna og aðrir reyndu að strjúka.

Sem betur fer slasaðist enginn en það var lítið um svefn og því voru það mjög glaðir en þreyttir bangsar sem biðu eigenda sinna á skólasafninu í morgun. Böngsunum öllum fylgdu síðan skemmtilegar upplýsingar um það sem þeir höfðu haft fyrir stafni um nóttina.

Öllum böngsunum og eigendum þeirra er þakkað kærlega fyrir komuna og Tumi tígur sendir þeim bestu kveðjur úr Hundraðekruskógi.

Þetta er hluti af eTwinning verkefni sem nemendur og kennarar ásamt skólasafnskennara taka þátt í og heitir A book is our friends. Auk okkar taka skólar frá Póllandi, Búlgaríu, Bretlandi, Króatíu, Lettlandi og Tyrklandi líka þátt.

Á myndunum má sjá bangsana bregða á leik um nóttina .