eTwinning verkefni í Selásskóla veturinn 2018-2019

eTwinning er aðgengilegt skólasamfélag á netinu þar sem hægt er að komast í samband við evrópska kennara og skólafólk, taka þátt í einföldum samstarfsverkefnum og sækja sér endurmenntun á vinnustofum og námskeiðum, svo eitthvað sé nefnt, allt með hjálp upplýsingatækni. Í vetur hafa eftirfarandi verkefni verið unnin í Selásskóla:
Book it 19!
Markmiðið með þessu verkefni var að hvetja nemendur til að lesa meira og að deila upplifun sinni af lestri bóka með öðrum. Nemendur lásu bækur og unnu svo í hópum að kynningum á þeim. Formið á kynningum var bókastiklur eða stuttar kvikmyndir þar bækurnar og voru kynntar og síðast en ekki síst mat lagt að gæði bókanna. Kynningarnar voru svo settar á sameiginlegt svæði þannig að hinir þátttakendurnir gætu skoðað. Það var gaman að sjá fjölbreytt val nemenda á svipuðum aldri á bókum. Nemendur í 5. bekk tóku þátt í þessu verkefni undir stjórn Rósu Harðardóttur á skólasafninu.
Let’s Celebrate 2018-2019
Í þessu verkefni voru áherslur á jóla- og páskahátíðina. Verkefnið var unnið allt skólaárið og tóku 44 kennarar frá 19 löndum í Evrópu þátt. Nemendur sendu bæði jólakveðjur og páskakveðjur í pósti á milli landa og sögðu frá hefðum í tengslum við þessar tvær hátíðir. Það voru nemendur í 3. bekk undir stjórn umsjónarkennaranna Bergljótar og Karólínu sem tóku þátt í þessu verkefni.
Nordic chat
Þetta er stutt verkefni sem nemendur í 4. bekk unnu með skóla í Helsinki í Finnlandi. Markmiðið með þessu verkefni var að kynnast siðum og venjum í hvoru landinu fyrir sig. Verkefnið var unnið í tengslum við Norræna viku hjá þeim í Finnlandi. Verkefnið var unnið undir stjór Hönnu Láru umsjónarkennara í 4. bekk
Garden full of spring flowers
Það voru 26 kennarar frá 17 löndum sem tóku þátt í þessu skemmtilega vorverkefni. Nemendur teiknuðu og klipptu út blóm og sendu til hinna þátttakendanna og fengu svo blóm frá þeim á móti. Blómunum var svo komið fyrir upp á vegg með upplýsingum um hvaðan það koma og með fána viðkomandi lands. Íslensku börnin teiknuðu holtasóley, þjóðarblóm okkar íslendinga og fræddust um það í þessu verkefni sem unnið var í 3. bekk í umsjón þeirra Bergljótu og Karólínu.
Gardens full of Spring butterflies
Fiðrildaverkefnið er líka skemmtilegt vorverkefni þar sem nemendur unnu með fiðrildi. Í þessu verkefni tóku þátt 35 kennarar frá 22 löndum. Nemendur teiknuðu fiðrildi og fræddust um þau. Síðan voru fiðrildin send til hinna landanna og um við fengum fiðrildi í pósti. Þau voru síðan hengd upp á vegg þar sem nemendur gátu virt þau fyrir sér með fána og landi hvers sendanda. Það voru nemendur í 1. bekk sem unnu þetta verefni undir stjórn þeirra Sigríðar og Stefaníu.
Land full of wild animals
Í þessu verkefni var unnið með villt dýr. Fyrst var farið í að kanna hvað dýr eru í útrýmingarhættu og hvað það þýðir og hvers vegna þau eru í hættu. Síðan fræddust nemendur um þau íslensku dýr sem teljast villt . Nemendur útbjuggu veggspjöld með upplýsingum um dýrin og teiknuðu myndir og allt var þetta sent til þeirra sem voru með okkur í verkefninu. En það voru 28 kennarar sem tóku þátt með bekkjunum sínum frá 15 löndum. Þegar við fengum sendingar frá hinum löndunum þá var allt sett upp á bekk og nemendur í öllum skólanum voru duglegir að staldra við og lesa sér til um hin ýmsu villtu dýr frá Evrópu. Þetta var samvinnuverkefni þeirra Hrannar og Sigurbjargar umsjónarkennara og Rósu á skólasafninu.
My foreign neighbour
Þettar var skemmtilegt verkefni sem unnið var í 5. bekk með nemendum frá Spáni. Megin tilgangurinn var að eignast vinabekk og kynnast lífi jafnaldra í þessum tveimur löndum. Nemendur fengu sinn eiginn pennavin og skrifuðst á við þá eftir áramót. Vonandi geta þeir haldið áfram að skrifa nýju vinum sínum á Spáni bréf. Þetta verkefni var unnið af Björgu umsjónarkennar í 5. bekk.
The Beatles: sharing songs
Það er svo sannarlega hægt að vinna eTwinning verkefni í öllum greinum og nemendur í 6. bekk tóku þátt í stuttu og einföldu verkefni í tónmennt. Verkefnið gekk út á það að velja sér eitt lag með Bítlunum, æfa það og syngja. Lagið var svo tekið upp og sent á sameiginlegt svæði verkefnisins. Hinir þátttakendurnir gerðu það líka og svo var horft á afraksturinn. Í þessu verkefni voru 52 kennarar sem tóku þátt með bekkina sína frá 14 löndum. Nemendur unnu þetta í tónmenntatíma hjá Sigrún tónmenntakennara.
We are readers
Þetta verkefni var unnið með nokkrum nemendum úr 7. bekk. Verkefnið var unnið í samvinnu við nemendur í Frakklandi og Tékklandi. Allir sem tóku þátt í þessu verkefni lásu bækurnar Vetrarfrí og Vetrarhörkur eftir Hildi Knútsdóttur og unnin voru mörg skemmtileg verkefni í tengslum við lesturinn. Fyrir utan að efla áhuga nemenda á lestri góðra bóka og auka orðaforða þeirra var markmiðið líka að nemendur átti sig á því að lestur er besta leiðin til að skilja heiminn betur, hitta nýtt fólk og víkka sjóndeildarhringinn. Þess má geta að beiðni um að taka þátt í þessu skemmtilega eTwinning verkefni kom frá Frakklandi en kennarinn þar hafði lesið þessar bækur og heillast af þeim. Nemendur unnu þetta á skólasafni með Rósu skólasafnskennara.
Nordic Dimension in School Libraries and Learning Centers
Þetta verkefni er bæði eTwinning verkefni og NORDPLUS og er tilgangurinn með því að efla skólasafnið í námi barnanna. Í vetur höfum við verið að skoða bókmenntir frá Norðurlöndunum og þá hvaða höfundar eru helst þýddir. Nemendur skoðuðu hvaðan bækurnar á safninu koma, hvað þær heita á frummálinu og hver þýddi þær. Þeir tóku þátt í lestrarátaki þar sem markmiðið var að lesa eins margar bækur frá Norðurlöndum öðrum en Íslandi og þeir gátu. Ekki kom það á óvart að Svíþjóð hafði vinninginn en flestar bækur sem þýddar eru frá Norðurlöndum koma þaðan. Þetta verkefni mun svo halda áfram á næsta ári. Það voru nemendur í 6. Bekk sem tóku þátt í þessu verkefni undir stjórn Rósu á safninu í samvinnu við Kristínu bekkjarkennara.
Eins og sést á þessari upptalningu þá er óhætt að segja að eTwinning verkefni eru vinsæl í Selásskóla. eTwinning verkefnin geta breytt skólastarfinu og auðgað á margan hátt, víkkað sjóndeildarhring bæði nemenda og kennara og aukið færni þeirra á ýmsa vegu. Allar námsgreinar eru gjaldgengar og auðveldlega má tengja samstarfið inn í margar námsgreinar.